Fréttatilkynning frá Bubba Kóngi

BUBBI KÓNGUR
e. Alfred Jarry
í uppsetningu Vér Morðingja
Ábyrgðarmenn: Vignir Rafn Valþórsson og Hannes Óli Ágústsson.

artFart sviðslistahátíðinni lýkur á stórfenglegri uppfærslu á hinu
klassíska verki Alfred Jarry, Bubba Kóng, en hún verður sýnd á
Menningarnótt kl. 21.30 í Smiðjunni, Sölvhólsgötu 13.

ATH. Aðeins 1. sýning, verður ekki endurtekið!!


Margir kannast við verkið út frá hinni frægu uppsetningu Herranætur á verkinu árið 1969 en þá lék Davíð Oddsson hlutverk Bubba, hinn valdasjúka og geðbilaða kóng sem svífst einskis til að hrifsa sér völd í ríki sínu.

Síðan eru liðin mörg ár og tekur þessi nýja uppsetning upp þráðinn í dag, 38 árum eftir að Bubbi flúði út úr leikritinu og tók völd á Íslandi.

 

Heimurinn sem við mætum er fullur af heimsins ósóma, heimur þar sem algjört virðingarleysi ríkir og allir eru
tilbúnir til að svíkja og pretta til að svala eigin græðgi.

Þar býr Bubbi, fyrrum kóngur en nú undirmaður í sveitum konungs.  Eftir áeggjan
frá Bubbu drottningu sinni og Skaufa höfuðsmanni, brýst Bubbi til valda með því að myrða konunginn og við tekur ógnarstjórn sem einkennist af fjöldamorðum og kúgun á alþýðunni.

En sonur fyrrum konungs, Búgalú, bíður átekta og hyggur á hefndir.

Bubbi og Bubba eru leikin af Hannesi Óla Ágústssyni og Lilju Nótt Þórarinsdóttur, Skaufi er leikinn af Stefáni Halli Stefánssyni og Búgalú er leikinn af Davíði Guðbrandssyni. Vignir Rafn Valþórsson leikur höfundinn, Alfred Jarry sjálfan en hann kemur mikið við sögu verksins.

Einnig koma ógrynni annarra leikara, dansara og annarra listamanna við sögu í uppsetningunni.

Vér Morðingjar vinna þessa sýningu út frá nýrri stefnu sem þeir kalla Víkingaleikhúsið.
Víkingaleikhúsið svífst einskis til að stela og svívirða hvað sem þeim sýnist úr öðrum leiksýningum til að nota í sína eigin sýningar. Enginn er óhultur, ekkert er undir rós, við gerum leiksýningar til að þóknast okkar eigin listræna metnaði án þess að vera feimin við að nýta allar þær hugmyndir sem við getum nappað annað staðar frá.

Við erum leikhúsfólk sem hefur séð allan fjandann, fullt af drasli sem það vill aldrei sjá aftur en einnig góða hluti sem við viljum endurnýta í okkar sýningum.

Við erum ekki að finna upp hjólið, það er löngu búið að því.  Við erum að setja mörg hjól saman og finna þar með upp á nýjum farartækjum sem gætu fleytt okkur inn í framtíðina.

ATH. Aðeins ein sýning!!

Pöntunarsími: 8217987 eða 6990913



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband